Ronja Ræningjadóttir
   
fimmtudagur, febrúar 17, 2005
Suma daga velti ég því alvarlega fyrir mér að fá blaðamann og heilbrigðiseftirlitið í heimsókn í vinnuna.

Sjáið þetta fyrir ykkur: Skrifstofa sem er alveg komin á tíma með málun og viðgerð. Sprungur í loftinu og á veggjum. Eilíf andskotans klóakfýla og jú reyndar, fýlan hefur versnað og er orðin margbreytilegri (við reynum ekki einu sinni að greina hana!). Ofninn kominn langleiðina ofan í gröfina þannig að það er alltaf skítakuldi inni (og ekki bætir trekkurinn undan gluggakistunni úr skák), sem er ekki nógu gott þegar það VERÐUR að opna gluggann til að lofta út. Eins og þetta sé ekki nóg þá lekur líka gjarnan úr loftinu og hefur verið settur upp forláta þvagleggur í loftið sem liggur ofan í ruslafötu við hliðina á skrifborðinu. Blótaði því um daginn þegar það náði að leka á skrifborðið og bleyta í pappírum að ég hafði ekki stillt tölvunni fyrir neðan mögulegan leka því að ótrúlegt en satt þá er hún bókstaflega í andarslitrunum, ræður ekki við að hafa nokkur forrit í gangi í einu, getur ekki vistað ef annað er í gangi og ekki öruggt að það sé hægt að skoða póstinn þegar mann lystir.

Og það sem er magnaðast við þetta er nafnið á pleisinu!!! :-D
Ronja litla reit um 17:42  
fimmtudagur, febrúar 03, 2005
Barnið og sálfræðingurinn

Prófaði barn í morgun. Ekki í frásögur færandi nema fyrir það að áhugasamara barn eða samvinnufúsara hefur vart komið fyrir augu sálfræðingsins áður. Það var svo gríðarlega kátt yfir þessu prófi að það tók ekki í mál að taka stutt hlé til að standa upp og hreyfa sig. Sálfræðingnum til mikillar ánægju þar sem hann var orðinn illa haldinn af koffínfráhvörfum og átti orðið í erfiðleikum með að muna spurningarnar.

Hnuss :-D

Barnið 1 - Sálfræðingurinn 0
Ronja litla reit um 16:03  
þriðjudagur, febrúar 01, 2005
Vá ég er búin að vera svo upptekin síðan ég komst að því hvenær ég á að deyja að ég hef ekki haft tíma fyrir síðuna. Um að gera að byrja að strax að nota tímann sko!

Það stóð til að fá sér í glas þrjú kvöld í röð síðustu helgi en miðkvöldið rann bara ekki neitt vegna þreytu og skemmtilegrar spilamennsku (ekkert áfengi nálægt mér nebblega). Mæli með Popppunktsspilinu. Rauðvínið rann hins vegar ljúft ofan í Gríshildi (ókei og mig) á fimmtudeginum sem og bjórinn á laugardeginum í bekkjardjamminu. Hriiikalega rosalega gaman. Og nú sit ég heiladauð í vinnunni og er að fara að skrifa skýrslur. As usual. Verð að fara út í sjoppu og kaupa smá nammi til að ég geti skrifað eitthvað í staðinn fyrir að eyða tímanum á netinu. Eða ætti ég kannski að eyða síðasta klukkutímanum á netinu bara? Æ nennekki að eiga skýrslurnar alveg eftir...

Þetta voru hugleiðingar dagsins - í boði APPLE - sem ég er að vona að sjái þetta og vilji gefa mér iPod í staðinn fyrir fallegar hugsanir og eina setningu á alnetinu.

Jæja af stað.
Ronja litla reit um 16:58  
Ég

Nafn: Ronja litla
Heima: Skóginum, Iceland
Um mig: Jarðbundinn skýjaglópur
sjá prófílinn minn
Fólk
Tilkynningar

Styttist í sumarfrí!!! Whoooppa!

Geymslan
Knúið af

Free Blogger Templates

BLOGGER