Ronja Ræningjadóttir
   
þriðjudagur, ágúst 31, 2004
Annar í H&M

Fyrsti var ekki nógu góður og mér tókst ekki að eyða einni krónu. En ég gefst ekki upp. Pæjan þarf að fá sér fleiri vinnuföt ;) (afsakanir, afsakanir)

Eftir rúman sólarhring leggjum við af stað til Helsinki. Komum aftur á föstudagsmorgunninn, verðum ekki nema sem samsvarar einum vinnudegi í borginni sjálfri en allan annan tíma á sjó. Sjáum til hvort ég þoli þetta skip betur en Akraborgina á sínum tíma...

Síðan síðasta túristablogg var skrifað höfum við farið að skoða konungshöllina, farið í Nordic Museum (hvort tveggja skemmtilegt) og svo fórum við í dagsferð til Uppsala. Það var líka skemmtilegt. Eftir allt þetta túristadæmi urðum við að taka einn letidag þar sem við fórum niður að sjó og sátum í sólinni.


Hej då!
Ronja litla reit um 09:50  
laugardagur, ágúst 28, 2004
þetta á einni bloggsíðunni og varð bara að vitna í það líka...
Ronja litla reit um 10:18  
föstudagur, ágúst 27, 2004
Jiminn eini það sem ég missti mig á Amazoninu. Get nefnilega pantað hingað til Svíþjóðar án þess að borga toll af varningnum. Munar sko helling um það! Er búin að panta einar sex bækur undanfarna tvo daga, þar á meðal Neuropsychological Assessment hennar Lezak (sem hún á reyndar ekki ein í þetta skiptið, tveir meðhöfundar, ný útgáfa sem kom út í júlí!). Einnig pantaði ég bækur fyrir foreldra um eflingu málþroska og tvær bækur um sensory integration (um börn með skipulags- og samhæfingarvanda ásamt öðrum vanda)! Svo langar mig líka í Handbook of Autism and Pervasive Developmental Disorders en það kemur ný útgáfa í desember á þessu ári. Jahá! Ég var svo ekki ein um að panta fræðilegar bækur, maðurinn verslaði sér líka helling. Þar á meðal Power System Stability and Control, Power System Control and Stability og Essential MATLAB for Scientists and Engineers.

Múhahahahah


Skemmtilegu fræðingarnir
Ronja litla reit um 20:49  
þriðjudagur, ágúst 24, 2004
Oft þegar ég horfi á Ólympíuleikana þá langar mig til að vera íþróttamaður, sé mig fyrir mér reyna, reyna aðeins meira, setja met og heyri alla dást að mér.
Svo paufast ég við að standa upp úr sófanum.


Skál í boðinu!
Ronja litla reit um 20:46  
Jæja, við erum búin að vera þvílíkt dugleg að túristast í dag. Fórum í tveggja tíma siglingu um þessar fallegu Feneyjar norðursins og röltum svo um í listasafninu nokkuð lengi. Hugsa að ég fari þangað aftur síðar til að fá fræðslu um nokkur málverkanna. Það er líka á planinu hjá okkur að skoða konungshöllina að innan og fara í nokkur söfn til viðbótar, ásamt einhverju flakki um nágrennið.


Stokkhólmur í dag :)
Ronja litla reit um 17:21  
mánudagur, ágúst 23, 2004
Þann 1. september förum við hjónaleysin með þessu skipi:


þangað:


Helsinki, við erum á leiðinni!
Ronja litla reit um 12:55  
sunnudagur, ágúst 22, 2004
Bjartur og fagur sumardagur, fullt af fólki í miðbænum eins og venjulega um helgi. Herinn með sýningu í höfninni, fólk raðar sér meðfram höfninni um kílómeters leið. Gaman. Ský dregur mjög skyndilega fyrir sólu. Þungir dropar byrja að falla. Fólk stynur létt. Allt í einu á orðtakið "eins og þruma úr heiðskíru lofti" afskaplega vel við þó ekki sé um þrumu að ræða heldur skýfall. Eins og að vera kominn í sturtu, kalda sturtu. Fólk lítur undrandi hvert á annað og svo þýtur það af stað til að leita skjóls. Göturnar verða skyndilega fámennar, fólk hleypur í ofboði undir húsveggi, undir skýli kaffihúsanna, hvert sem það getur farið í smá skjól. Lækir myndast á götunum. Fólk er flissandi, vandræðalegt eftir hraðahlaupin sem myndu sóma sér vel í Aþenu, í stuttbuxunum sínum og stuttermabolunum sem eiga skyndilega alls ekki við. Sérstök stemning. Lítið ævintýri :)
Ronja litla reit um 19:42  
laugardagur, ágúst 21, 2004
Tónleikarnir í gær voru bara frábærir (fyrir utan karlasaumaklúbbinn við hliðina á okkur sem ruglaðist á kaffihúsi og Laugardalshöllinni). Svartsýniskonurnar misstu næstum því af uppklöppun nr. 2 því þær voru svo vissar um að það væri bara ekki hægt að gera meira eftir Perfect Day ;)

Það verður ekki mikil Reykjavíkurmenning hjá mér í dag því ég er komin til Stokkhólms! Alveg sátt við þau skipti :) Yndislegt veður (22 gráður), yndislegur maður og ég yndislega þreytt eftir lítinn svefn í nótt (ég meina, hvernig eiga nátthrafnar að fara að því að sofa lengi fyrir morgunflug?). Ætla í sturtu og leggja mig svo, lovely!
Ronja litla reit um 14:14  
miðvikudagur, ágúst 18, 2004
Ein ég sit og pikka,
á eldgamla tölvu,
enginn er lengur að vinna,
nema vinnualkinn

og svo framvegis...

Jibbí ég fer út eftir 3 daga! ...úps, ýtti á ctrl+s af gömlum vana og allt publishaðist. Er orðin svo sjálfvirk í flýtitökkunum af því að vera svo endalaust í ritvinnslu að ég tek ekki einu sinni eftir því ef ég ýti á það. Þannig að ef hálfklárað blogg sést þá er skýringin þessi!;)


Annars er helsta lýsing á staðháttum þessi: pappírar liggja eins og hráviði út um allt á skrifborðinu, ægir saman skýrslum, hegðunarmatslistum, greindarprófum, skriffærum, tómum gosflöskum, hálsbrjóstsykrum, eplum og óhreinn bolli leynist þarna líka. hehehehe sé bara skrifborð eins læriföðurins fyrir mér
Ronja litla reit um 17:50  
miðvikudagur, ágúst 11, 2004
Alltaf svo gaman fyrst þegar ég finn að veikindin eru eiginlega alveg horfin, þá finnst mér eins og ég sé svo orkumikil að mig langar næstum út að hlaupa. En bara næstum! Búin að sóla á mér tærnar í dag því þær eru eini líkamshlutinn sem sólin hefur náð að skína á í dag við stofugluggann þar sem ég sit og fræðist um tölur. Líður eins og ég sé að raða ofan í innkaupapoka, skipulega svo allt komist fyrir, þyngstu hlutirnir neðst, grænmeti og ávextir ekki með frystivörum... er sko að raða saman niðurstöðukaflanum, vonandi í síðasta sinn! Pixies hjálpa mér við þetta... ooohh said the man to the lady...ohhh said the lady to the man she adored...
Ronja litla reit um 19:02  
þriðjudagur, ágúst 10, 2004
Í huga mér er ég nýþvegin, nýgreidd og fallega máluð í fötum sem gera mikið fyrir vaxtarlagið, úti í sólinni, jafnvel fyrir utan eitthvert kaffihúsið með vinum að sötra bjór og nartandi í eitthvað góðgæti. Heyri í fuglunum syngja, sólin skín á mig, strákarnir blístra þegar þeir reka augun í mig, hlegið að bröndurunum mínum, allt svo frábært.

Raunveruleikinn: Allt annar... ætla ekki að lýsa honum en eftir þriggja daga veikindalegu kemst hann hvergi nálægt ímyndun minni. Læt mig halda áfram að dreyma...
Ronja litla reit um 18:11  
föstudagur, ágúst 06, 2004
Farfuglinn minn segir mér að það sé 27 stiga hiti og sól í Stokkhólmi. Ég sit í vinnunni með hor og auman háls, utandyra er rigning og drungalegt. Mér finnst þetta ósanngjarnt. Ætla að bóka flug út í dag, þegar ég finn þetta vildarklúbbskort eða hvað sem það heitir. Nenni ekki að hlusta á aðra skammarræðu yfir öllum punktunum sem ég missi ef ég nota það ekki;) Það verður gaman gaman gaman að fara út í gott veður og H&M!
Ronja litla reit um 13:04  
Ég

Nafn: Ronja litla
Heima: Skóginum, Iceland
Um mig: Jarðbundinn skýjaglópur
sjá prófílinn minn
Fólk
Tilkynningar

Styttist í sumarfrí!!! Whoooppa!

Geymslan
Knúið af

Free Blogger Templates

BLOGGER