Ronja Ræningjadóttir
   
föstudagur, júlí 30, 2004
já, og vegna fjölda fyrirspurna síðan þetta bloggútlit leit dagsins ljós vil ég taka það fram að þetta er mynd af mér hérna fyrir ofan, litaði sko hárið á mér ljóst sjáiði til

og vinna svo...
Ronja litla reit um 13:02  
Þvílíkt og annað eins slagveður og rok! Hélt að það væri ennþá sumar en eftir að hafa séð ótölulegan fjölda laufblaða á götum úti og gulnuð grös er ég ekki enn svo viss. Tilhugsunin um að liggja undir hlýrri sæng með góða bók og jafnvel eitthvað gott að narta í og drekka verður ómótstæðileg... Er að lesa um Heiki og Vingu þessa dagana, hrörnun Grásteinshólma og baráttu þeirra við að ná ættarbæjunum aftur undir réttar hendur múhahahaha
Jæja, vinnivinn...
Ronja litla reit um 12:50  
miðvikudagur, júlí 28, 2004
Rakst á þetta á breskum lesblinduvef áðan: ... Each person has a true age which is known as there chronological age (CA), when they complete an intelligence test, this gives a figure of their metal age (MA) ... (skáletrun mín) híhíhí
Ronja litla reit um 15:16  
Þegar ég var lítil ætlaði ég að meðal annars að verða fjallgöngukona. Ætlaði nokkrum sinnum að príla upp á fjallið heima en reyndar varð aldrei af því. Merkilegt hvað áhugasviðin geta umpólast, fyrir tólf ára aldur var ég orðinn innipúki af verstu gerð og liggur við að ég segist hafa farið lítið út úr húsi síðan. Fjallganga er allavega mjög fjarlægur möguleiki þessi árin. Í eiginlegri merkingu allavega. Kannski ég haldi áfram að príla upp á fjall einhverfunnar. Eða eitthvað annað fjall. Til dæmis þetta sem ég á að vera að vinna... ughh...
Ronja litla reit um 13:16  
þriðjudagur, júlí 27, 2004
Hvernig stendur á þessu eirðarleysi sem grípur mann alltaf annað slagið? Til dæmis þegar það verður erfitt að sitja kyrr í vinnunni og halda sér að verki, hugurinn hleypur út um víðan völl en samt er ekki úthald eða áhugi á að gera neitt sérstakt annað. Þetta á svo sem ekki bara við í vinnunni heldur á öðrum vígstöðvum líka (þó það geti vel verið að vinnan sé aðalstaðurinn). Kaffipása gerir bara illt verra því þá verður svo erfitt að setjast niður aftur og halda áfram og dýrmætur tími tapast á því (huh ekki það að bloggið taki minni tíma). Hmmm þarf að finna þessu stað í greiningarviðmiðum, því eins og einhver sagði: "það er enginn heilbrigður, bara illa greindur" ... er samt ágætlega greind sjálf svo sem ;)

Ronja litla reit um 10:49  
mánudagur, júlí 26, 2004
...í tengslum við fyrri umræður...


Hvernig veit maður hverjum maður á að giftast?
Nokkur bandarísk börn voru spurð spurninga um hjónabandið og samskipti
kynjanna. Hér koma nokkur gullkorn.

HVERNIG VEIT MAÐUR HVERJUM MAÐUR Á AÐ GIFTAST?

"Maður verður að finna einhvern sem hefur gaman af því sama og maður
sjálfur. Ef maður til dæmis hefur gaman af íþróttum verður hún að hafa
gaman af því að þú hafir gaman af þeim og sjá um snakkið og dýfuna."
Alan, 10 ára.

"Það ákveður það enginn áður en hann verður fullorðinn hverjum hann
ætlar að giftast. Guð ákveður það allt löngu áður og maður kemst ekki að því fyrr en það er orðið of seint."
Kirsten, 10 ára.

Á HVAÐA ALDRI ER BEST AÐ GANGA Í HJÓNABAND?

"Það er best að vera 23 ára því þá er fólkið búið að þekkjast í heila eilífð."
Camille, 10 ára.

"Maður þarf ekki að vera á neinum sérstökum aldri, maður þarf bara að
vera bjáni."
Freddie, 6 ára.

HVERNIG SÉR MAÐUR HVORT ÓKUNNUGT FÓLK SÉ GIFT?

"Maður verður bara giska út frá því hvort manni sýnist þau vera að æpa á sömu krakkana."
Derrick, 8 ára.

HVAÐ EIGA FORELDRAR ÞÍNIR SAMEIGINLEGT?

"Bæði vilja ekki eignast fleiri börn."
Lori, 8 ára.

HVAÐ GERIR FÓLK Á STEFNUMÓTUM?

"Á stefnumótum á að vera gaman því fólkið er að kynnast hvort öðru.
Meira að segja strákar geta haft eitthvað að segja ef maður hlustar nógu lengi.
Lynnette, 8 ára.

"Á fyrsta stefnumótinu lýgur fólk bara hvort að öðru og það er yfirleitt nóg til að það hafi áhuga á að hittast aftur."
Martin, 10 ára.

HVAÐ MYNDIRÐU GERA EF ÞÚ FÆRIR Á STEFNUMÓT SEM ENDAÐI ILLA?

"Ég myndi hlaupa heim og þykjast vera dauður. Daginn eftir myndi ég hringja í öll blöðin og láta þau skrifa um mig í andlátsfréttunum."
Craig, 9 ára.

HVENÆR ER ÓHÆTT AÐ KYSSA EINHVERN?

"Ef hann er ríkur."
Pam, 7 ára.

"Það er bannað með lögum ef maður er ekki orðinn átján ára og það er
ekki sniðugt að lenda í einhverju veseni út af því."
Curt, 7 ára.

"Reglan er sú að ef maður kyssir einhvern á maður að giftast honum og eignast með honum börn. Þannig á maður að gera."
Howard, 8 ára

HVORT ER BETRA AÐ VERA EINHLEYP(UR) EÐA Í HJÓNABANDI?

"Það er betra fyrir stelpur að vera einhleypar en það er verra fyrir stráka. Það verður einhver að taka til eftir stráka."
Anita, 9 ára.

HVERNIG VÆRI HEIMURINN EF ENGINN GIFTIST?

"Það væri alla vega erfitt að útskýra alla þessa krakka."
Kelvin, 8 ára.

HVERNIG Á AÐ VIÐHALDA ÁSTINNI Í HJÓNABANDINU?

"Maður á að segja konunni sinni að hún sé falleg, jafnvel þótt hún
líti út eins og vörubíll."
Ricky, 10 ára.


Ronja litla reit um 14:19  
föstudagur, júlí 23, 2004
Veðrið vinnuhæft í dag. Of mikil sól getur líka verið hættuleg þannig að þetta er allt í lagi. Eintóm vinna framundan næstu daga og vikur, hefði átt að hafa meiri áhyggjur af því að ég hefði ekki nóg að gera á meðan á þessari sumarlokun stæði. Hlakka til að sofa út á morgun :)


Fylgist með fæðingarblettunum!
Ronja litla reit um 11:24  
fimmtudagur, júlí 22, 2004
Jibbíííí!!! Komin með bílinn loksins... Fékk hann í gær fyrir nokkuð sanngjarnt verð (reyndar að undanskildum gráu hárunum sem ég fékk á kollinn fyrir að álpast út í þessi viðskipti). Vinnan í gær fór því fyrir lítið því það var svo rosalega svakalega æðislega gaman að keyra út um allan bæ og út úr bænum. Þess vegna langur vinnudagur í dag til að vinna upp glataðan tíma í tölvunni (allt í lagi samt því ég sé folann fyrir utan gluggann;) Er að spá í að skíra hann Vandráð (viðutan) í tilefni af fyrri eiganda, fjölskyldu hans og bílasala hehehehe hmmm ég ætti nú kannski ekki að láta greyið gjalda þess. Þetta er svo mikill stelpubíll (yaris sko), brosti út í annað í gær þegar ég skoðaði þjónustubókina sem fylgdi með bílnum og sá leiðbeiningar, með myndum, um hvernig ætti að skipta um dekk!

Fegin að það er ekki meiri sól úti svo ég verði ekki enn meira abbó út í þá sem geta verið úti í góða veðrinu. Hmm reyndar væri samt allt í lagi ef það væri meiri sól því þá sæi ég fleiri byggingarvinnumenn bera að ofan hér fyrir utan gluggann... Jæja ok, þeir eru kannski ekki alveg á mínum aldri þannig að það skiptir kannski ekki máli
Ronja litla reit um 14:23  
þriðjudagur, júlí 20, 2004
Jæja, þá er umboðið komið frá langtíburtistan og ég fæ bílinn á morgun, jibbíííí! Ætti þess vegna að vera brunandi annað kvöld eitthvað út í bláinn, það er að segja ef þetta klikkar ekki...

Hef svona verið að íhuga að segja mig úr þjóðkirkjunni og hef fengið undarleg viðbrögð frá mínum nánustu, sumum það er að segja. Mamma skilur ekkert í því hvað klikkaði í uppeldinu og manninum er nóg boðið, ofboðið, því þá get ég ekki gift mig í kirkju...! Er nú samt viss um að bónorð hafi ekki verið á leiðinni heldur sé þetta meira praktískt atriði... eða eitthvað... Get svo sem ekki sagt að kirkjubrúðkaup heilli mig eitthvað sérstaklega, eða brúðkaup yfirleitt. Finnst þetta meira praktískt atriði þegar maður er orðinn "stór" og kominn með börn og svona... Barneignir eru svo annar handleggur (sem fólki í kringum mig finnst voða gaman að velta fyrir sér, fyrir mína hönd). Við skötuhjúin teljumst allavega ágætlega skrítin á íslenskan mælikvarða að vera búin að vera saman í átta ár, barnlaus...
Ronja litla reit um 22:06  
mánudagur, júlí 19, 2004
Komum við í Jökulsárlóni á heimleiðinni. Læt myndina tala fyrir sjálfa sig.
Ronja litla reit um 19:24  
Jólasveinarnir eru ekki bara meðal manna um jólin. Ef vel er að gáð leynast þeir víða. Til dæmis á bílasölum. Sumir bílasalar eru jólasveinar í dulargervi. Sumir umboðsmenn bíleigenda sem ætla að selja bíl eru líka jólasveinar í dulargervi. Jólasveinar sem vita ekkert í sinn haus. Barasta ekki neitt og kvarta undan því að aðrir jólasveinar viti ekki neitt í sinn haus.  Ég er ekki jólasveinn. Vissi meira um málin heldur en jólasveinarnir sem áttu að vera með málin á hreinu. Urrrr ég hélt ég hefði fengið útrás áðan en greinilega ekki. Bíllinn er sem sagt tilbúinn en þessi fífl sem þykjast vera að selja mér bílinn eru það ekki. punktur
 
 
Suðurlandið og austurlandið lagt undir bíldekk um helgina (ekki mitt greinilega!). Samtals ekið um 1400 kílómetra. Held að það sé þokkalegt. Höfðum aðsetur á Djúpavogi í góðu yfirlæti og flökkuðum um firðina með viðkomu á Reyðarfirði. Alltof stuttur tími samt, hefðum þurft að vera viku í viðbót.


Ronja litla reit um 18:50  
föstudagur, júlí 09, 2004
hann er bara svo mikið æði...


Ronja litla reit um 10:02  
föstudagur, júlí 02, 2004
Flúði sjónvarpsáhorf þegar mér blöskraði nákvæmnin í lýsingum flughamfara og raunveruleikinn í leiknum flugslysum á National Geographic (þemakvöld í kvöld). Fannst ég komin aðeins of nálægt því að vinna upp flughræðslu :) Maðurinn horfir á þetta af miklum áhuga enda með stáltaugar! Og talandi um áhugann, hann er búinn að glápa á þetta síðustu fimm tímana! Hann sem á erfitt með að samþykkja vídeógláp!

Annars letilíf hér á bæ, loksins, eftir 12 daga vinnutörn. Bíllinn minn sæti fíni var því miður ekki tilbúinn í dag eins og líkur voru á upphaflega. Sem þýðir líklega ennþá rólegri helgi hér á bæ en við vorum nebblega að spá í að rúnta aðeins um helgina. Leti er góð :)
Ronja litla reit um 22:45  
fimmtudagur, júlí 01, 2004
Haldiði að ég hafi ekki gripið í Ísfólkið í gær - eftir margra ára aðskilnað! Pínu smeyk samt við lesturinn því þetta var svo mikið ævintýri á sínum tíma. Vonandi að lestur óævintýralegra bóka undanfarin ár hafi ekki áhrif á upplifunina! Reyndar létu OCD einkenni í tengslum við málfar og prentun aðeins á sér kræla...

Sýnist veðrið úti alveg réttlæta það að ég hleypi sjálfri mér fyrr heim. Rosalega heitt hérna innandyra í þessu annars óþétta húsi (sögur segja að í einu herbergi gegni sólargardínur hlutverki regnhlífar á slæmum dögum!)

best að skora eins og einn sébéséelllista áður en ég fer heim ;)
Ronja litla reit um 15:27  
Ég

Nafn: Ronja litla
Heima: Skóginum, Iceland
Um mig: Jarðbundinn skýjaglópur
sjá prófílinn minn
Fólk
Tilkynningar

Styttist í sumarfrí!!! Whoooppa!

Geymslan
Knúið af

Free Blogger Templates

BLOGGER